Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2024 samþykkt

Útsýni af Högnastaðaásnum, yfir Flúðir og að Miðfelli er afar fallegt.
Útsýni af Högnastaðaásnum, yfir Flúðir og að Miðfelli er afar fallegt.

Fjárhagsáætlun Hrunamannahrepps, A og B hluta, var samþykkt við síðari umræðu í sveitarstjórn þann 7. desember 2023. 

Á fundinum gerði sveitarstjóri grein fyrir helstu atriðum áætlunarinnar sem eru eftirfarandi: 

Með fjárhagáætluninni er lagður grunnur að fjárhagsramma sveitarfélagsins fyrir árið 2024 sem nefndum og stofnunum sveitarfélagsins er ætlað að vinna vinna eftir. Auk þess er unnin 3ja ára áætlun fyrir árin 2025-2027 eins og sveitarfélögum er lögum samkvæmt ætlað að gera.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:
• Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,74%.
• Hækkun tekna vegna útsvars og fasteignaskatts á milli ára er áætluð um 10%.
• Á árinu 2023 var lagt til að álagningarprósenta fasteignaskatts í A-flokki (íbúðarhús og sumarhús) lækkaði úr 0,49% í 0,48%.
  Var sú lækkun sett fram til að mæta hækkun á fasteignamati í sveitarfélaginu. Fasteignamat hækkar einnig á milli áranna 2023 og 2024 og því er hér lagt til að
  álagningarprósenta fasteignaskatts í A-flokki lækki í 0,47% til að koma til móts við fasteignaeigendur í sveitarfélaginu.
• Aðrar álagningarprósentur fasteignagjalda eru óbreyttar og rétt að geta þess að álagningarprósenta á C-flokk (atvinnuhúsnæði) er langlægst hér í
  Hrunamannahreppi í Uppsveitunum.

Stefnt er að því að álögð gjöld hækki ekki umfram hækkun neysluverðsvísitölu síðastliðinna 12 mánaða eða um 8% að jafnaði. Þó ber að geta þess að fasteignagjöld miðast við fasteignamat eigna í sveitarfélaginu en með nýrri aðferðafræði sem tekin var upp við fasteignamat fyrir nokkrum árum er ljóst að fasteignamat hækkar með mjög misjöfnum hætti innan sveitarfélaga sem og á milli þeirra og því er allur samanburður á hækkunum milli ára snúinn.
• Lagt er til að gjalddögum fasteignagjalda verði fjölgað og verða þeir nú 9 í stað 8 áður.
• Sorphirðu- og urðunargjöld verða kr. 83.085,-.
• Varðandi launakostnað er talsverð óvissa þar sem flestir kjarasamningar eru lausir í lok mars. En í áætluninni er tekið mið af gildandi
   kjarasamningum auk þess sem hækkun er sett á einstakar deildir til að mæta væntum launahækkunum.
• Frístundastyrkur breytist þannig að fleiri fái notið en nú gildir frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 0 - 18 ára í stað 6-18 ára eins og
  áður var. Hækkar styrkurinn milli ára og verður 52.500,-.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 eru eftirfarandi:
Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er jákvæð um 89,2 mkr.
• Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 96,9 m.kr.
• Heildartekjur Hrunamannahrepps (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 1.915 m.kr. fyrir árið 2023. Þar af eru skatttekjur (útsvar og
  fasteignaskattur) áætlaðar 819,3 m.kr.
• Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 275 m.kr.
• Aðrar tekjur A og B hluta eru áætlaðar 821,2 m.kr.
• Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 1.695 m.kr..
• Niðurstaða samstæðu A og B hluta án fjármagnsliða og afskrifta (EBIDTA) er jákvæð um 317,7 milljónir sem er 16,5% af tekjum sveitarfélagsins.
• Fjármagnsliðir eru áætlaðir 130,3 m.kr.
Skuldahlutfall Hrunamannahrepps verður 72,5% í árslok 2024.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur ríkisstjórnin samþykkt að ákvæði í lögum varðandi skuldahlutfall og jafnvægisreglu séu felld út allt til ársins
2025. En þrátt fyrir það gætir sveitarstjórn að því að skuldir sveitarfélagsins fari ekki yfir 150% af tekjum og er Hrunamannahreppur
langt undir því viðmiði á árinu 2024.

Framkvæmdaáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir 326,5 m.kr. fjárfestingum nettó í A og B hluta.

Þriggja ára áætlun 2025-2027
Helstu niðurstöður þriggja ára áætlunar fyrir árin 2025-2027 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2025 eru 1.938 m.kr., fyrir árið 2026 2.026 m.kr. og fyrir árið 2027 2.116 m.kr.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2025 um 86 m.kr., fyrir árið 2026 um 122 m.kr. og fyrir árið 2027 um 153 m.kr.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2025 verði 241 m.kr., fyrir árið 2026 verði það 269 m.kr. og fyrir árið 2027 verði það 304 m.kr.

Á árunum 2025 – 2027 er gert ráð fyrir að fjárfestingar samstæðu Hrunamannahrepps muni samtals nema 627,5 m.kr. og að tekin verði ný
langtímalán til að mæta þeim á tímabilinu að upphæð 100 m.kr.

Íbúum fjölgar og atvinnutækifærum einnig
Hrunamannahreppi er nú búið að úthluta lóðum í þéttbýlinu á Flúðum fyrir ríflega 50 íbúðir. Eru framkvæmdir hafnar við margar þeirra og aðrar eru í farvatninu.
Þó verður að segjast að ytri aðstæður eru ekki sérlega hagfelldar húsbyggjendum í augnablikinu. Verðbólgan er þrálát og stýrivextir Seðlabankans þrátt fyrir að
vera í hæstu hæðum gera lítið til að slá á verðbólguna. En þó að ytri aðstæður hafi oft verið betri en nú er þá hafa einstaklingar og fyrirtæki trú á Hrunamannahreppi og því hefur öllum lóðum verið úthlutað sem auglýstar hafa verið. Einnig er jákvætt að sjá að rekstraraðilar hafa trú á svæðinu
en ýmsar hugmyndir eru nú uppi varðandi uppbyggingu á ferðatengdri starfsemi í sveitarfélaginu.

Það er ánægjulegt að sjá að íbúum hefur  fjölgað á árinu 2023 en íbúar 7. desember 2023 eru nú 902 en voru 874 þann 1. janúar 2023. Hafa því 28 nýir
einstaklingar bæst í hóp Hrunamanna á árinu. Fjölgun ársins nemur því núna rétt um 3%. Ekki er útlit fyrir annað en að sú þróun muni halda miðað við þann mikla
fjölda íbúða sem hér eru í farvatninu og þann áhuga fjárfesta á svæðinu sem við nú upplifum.

Aldís Hafsteinsdóttir