Fara í efni

Markaðsstofa Suðurlands

Markaðsstofa Suðurlands er samvinnuvettvangur ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Suðurlandi um ímyndarsköpun, þróun og markaðssetningu áfangastaðarins í heild. Markaðsstofan markar stefnu fyrir ferðaþjónustu innan landshlutans í gegnum áfangastaðaáætlun ásamt því að sinna fjölþættu kynningarstarfi og ráðgjöf til fyrirtækja varðandi markaðssetningu.

Tilgangur Markaðsstofu Suðurlands er að vera hluti af stoðkerfi ferðaþjónustufyrirtækja og tengdri starfsemi á Suðurlandi, til að hafa yfirsýn, gæta hagsmuna, veita upplýsingar og koma að og halda utan um þróunarverkefni sem stuðla að því að auka veg ferðaþjónustunnar í landshlutanum.

Markaðsstofa Suðurlands er sjálfseignarstofnun sem sett var á stofn 19. nóvember 2008. Stofnendur stofunnar eru Ferðamálasamtök Suðurlands, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Rúnturinn um Rangárþing og loks Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu og nær starfssvæði stofunnar frá Lónsheiði í austri að Sandskeiði í vestri auk Vestmannaeyja.

Tilgangur
Tilgangur stofnunarinnar er að efla markaðsstarf á Suðurlandi með sérstakri áherslu á að auka atvinnustarfsemi og gjaldeyristekjur á Suðurlandi. Tilgangur stofnunarinnar er að efla samstarf atvinnulífsins, sveitarfélaga, ríkisvaldsins og stoðkerfisins með öflugu markaðsstarfi innanlands sem utan með það að markmiði að bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu eða atvinnustarfsemi á svæðinu. Tilgangur stofnunarinnar er því hvers konar markaðs- og kynningarstarf til að stuðla að því að byggð og fjölbreytt atvinnu- og búsetuskilyrði verði til staðar á landsvæðinu öllu.

Hlutverk
Hlutverk Markaðsstofu Suðurlands er að vera leiðandi afl í að vinna með aðilum í virðiskeðju ferðaþjónustunnar á Suðurlandi til að tryggja samstarf og samtal mismunandi hagsmunaaðila ásamt því að leiða samvinnu lykilaðila í stoðþjónustu ferðaþjónustunnar á Suðurlandi.

Þá er eitt helsta hlutverk Markaðsstofu Suðurlands er að standa fyrir öflugu markaðsstarfi fyrir landshlutann með það að markmiði að laða til hans innlenda og erlenda gesti. Markaðssóknin skal byggð á viðeigandi upplýsingaöflun og greiningum til að hámarka fjárfestingu þeirra sem að stofunni standa. Þá er það hlutverk MSS að samræma markaðs- og kynningarmál sunnlenskrar ferðaþjónustu gagnvart innlendum og erlendum gestum.

Einnig er það hlutverk MSS að standa að öflugri upplýsingaöflun- og miðlun milli beinna hagsmunaaðila stofunnar.

Markmið
Markmið Markaðsstofunnar er að auka veg ferðaþjónustunnar á Suðurlandi með því að laða gesti til landshlutans. Þá er markmiðið að fá gesti til að dvelja á Suðurlandi og ferðast vítt og breytt um svæðið. Þá er markmiðið að stuðla að bættri og samræmdri ímynd áfangastaðarins svo að hagræn áhrif ferðaþjónustu skili sér inn til landshlutans í heild.