150 ára afmælis Einars Jónssonar minnst í Hrunamannahreppi
Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra ásamt Atvinnu-, ferða- og menningarnefnd að leggja fram tillögu að því með hvaða hætti sveitarfélagið geti sem best gert 150 ára afmæli Einars Jónssonar, myndhöggvara skil en þann 11. maí næstkomandi eru 150 ár frá fæðingu þessa merka listamanns.
Í ár eru einnig liðin 70 ár frá andláti hans en Einar og eiginkona hans, Anna Jónsson, eru jarðsett í Hrepphólakirkjugarði. Er undirbúningur að dagskrá þegar hafinn og mun listamannsins verða minnst, í hans heimasveit, með veglegum hætti þann 11.maí næstkomandi.
Á fundi sveitarstjórnar var lagt fram minnisblað frá sveitarstjóra vegna fæðingarafmælis Einars Jónssonar, myndhöggvara en þar kemur eftirfarandi fram:
Einar Jónsson var brautryðjandi í myndhöggvaralist á Íslandi. Einar hélt til Kaupmannahafnar til að læra höggmyndalist og stundaði hann m.a.nám við Konunglega listaháskólann á árunum 1896 til 1899 með styrk frá Alþingi. Árið 1917 giftist Einar danskri konu, Önnu Jörgensen, en systir hennar, Franzisca, var gift rithöfundinum Gunnari Gunnarssyni. Einar vann mikið með þjóð- og goðsöguleg minni. Fjöldi verka hans eru til sýnis í Listasafni Einars Jónssonar og mörg önnur eru þekkt kennileiti svo sem styttan af Ingólfi Arnarsyni við Arnarhól og svo er Alda aldanna, eitt hans þekktasta verk, áberandi kennileiti í miðbæ Flúða.
Einar fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi þann 11. maí 1874 og verða því í ár 150 ár liðin frá fæðingu þessa mikla listamanns. Hann lést þann 18. október 1954 og því eru í ár 70 ár frá andláti hans en Einar er jarðsettur ásamt konu sinni í kirkjugarðinum við Hrepphólakirkju.
Einar reisti sér 20 m2 sumarhús að Galtafelli í Hrunamannahreppi sem hann kallaði Slotið og er það eitt elsta hús sinnar tegundar á landinu. Hann og eiginkona hans dvöldu langdvölum að Galtafelli í sumarhúsi sínu eða eins og segir í grein um Einar Jónsson, myndhöggvara, sem birtist í Morgunblaðinu 21. desember 1982: „Flestum sumrum hin síðari ár dvöldust þau hjónin um tíma í sumarhúsi sínu á Galtafelli. Þar mótaði Einar ekki myndir með höndum sínum, en hugurinn var að verki og ýmsar hugmyndir, sem hann vann að á vetrum, fæddust á sumrum eystra. Þar naut hann innilegs samlífs við þá náttúrutöfra sem höfðu heillað hug hans í bernsku og veittu honum innblástur til æviloka.“ Sumarhús Einars í Galtafelli var friðað árið 2014 og er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands.
Í ljósi ríkulegrar tengingar listamannsins við sína heimasveit er það vel við hæfi að Hrunamenn minnist Einars Jónssonar, núna í ár, þegar 150 ár eru liðin frá fæðingu hans.