Ályktun sveitarstjórnar vegna samgönguáætlunar 2024-2038
Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps þann 19. október s.l. var lögð fram umsagnarbeiðni frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaráætlun fyrir árin 2024-2028, 315. mál.
Af því tilefni bókaði sveitarstjórn eftirfarandi og hefur sveitarstjóri þegar komið ályktuninni á framfæri við Alþingi:
Sveitarstjórn fagnar því markmiði sem fram kemur í fyrirliggjandi samgönguáætlun en þar kemur fram að samgöngur eigi að vera greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar auk þess að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Eitt af höfuðmarkmiðum í áætluninni er bætt vetrarþjónusta og fækkun malarvega og í því sambandi hefur verið rætt um að framkvæmdir og þjónusta eigi að taka mið af umferðarþunga. Því minnir sveitarstjórn á fyrri erindi vegna vetrarþjónustu á Skeiða- og Hrunamannavegi frá Flúðum og að Biskupstungnabraut. Snjómokstur á þeim vegi, frá Flúðum að Kjóastöðum, er eingöngu tvisvar í viku sem er einsdæmi ef horft er til stofnvega á Suðurlandi.
Einnig er minnt á mikilvægi þess að stofnvegum á Gullna hringnum verði vel sinnt en á Gullna hringnum eru ma. fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins Þingvellir, Geysir og Gullfoss. Sveitarstjórn tekur undir sjónarmið sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að ný brú verði byggð yfir Tungufljót milli Gullfoss og Geysis fyrr en áætlunin gerir ráð fyrir en líklega er hér um fjölförnustu einbreiðu brú landsins er að ræða.
Að lokum vill sveitarstjórn ítreka mikilvægi þess að vegakerfi Suðurlands sé sinnt með þeim hætti að öryggi sé tryggt enda eru á svæðinu fjölförnustu vegir landsins með tilheyrandi hættu og umferðarþunga.