Fara í efni

Blákvíslarveita

Frá fundi Veitu- og framkvæmdanefndar
Frá fundi Veitu- og framkvæmdanefndar


Miklar fjárfestingar eru áætlaðar í Hrunamannahreppi á þessu ári. Ein þeirra er möguleg lagning kaldavatnsveitu frá Blákvísl á Hrunamannaafrétti. Verkefnið var kynnt af veitustjóra á íbúafundi í desember sl.. Það liggur fyrir að slíkur veitustofn er ekki gefins, og því umtalsverð fjárfesting í ekki fjölmennara samfélagi. Það liggur þó fyrir að vöntun verður á köldu vatni, ekki síst vegna mikilla umsvifa og framkvæmda í sveitarfélaginu sem nú eiga sér stað og allt útlit er fyrir að verði áfram. Sveitarfélagið hefur einnig lagt kaldavatnsveitu um stóran hluta af dreifbýli Hrunamannahrepps ásamt því að tryggja hluta af íbúum og fyrirtækjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi vatn með sama hætti. Um stórt verkefni er að ræða og má lítið út af bregða til að hlutirnir fari ekki eins og lagt var upp með.

Á fundi Veitu- og framkvæmdanefndar Hrunamannahrepps í gær var farið yfir verkefnið. Guðmundur Daníelsson mætti á fundinn og fór ásamt veitustjóra yfir fyrirkomulag næstu mánaða. Guðmundur mun stýra verkinu um Blákvíslarveitu og halda utan um alla ferla þess ásamt veitustjóra. Í byrjun felst verkefnið í að taka saman öll gögn málsins, svo að kjörnir fulltrúar geti tekið góða og upplýsta ákvörðun um jafn stóra framkvæmd og um ræðir. Í framhaldinu verður svo farið í að útbúa samninga, halda utan um fundargerðir og annast samskipti við stofnanir og verktaka eins og þurfa þykir. Guðmundur Hjaltason hjá Eflu sér um hönnun Blákvíslarveitu. Hönnunin er þegar komin af stað, þó ýmis tæknileg atriði standi enn út af.

Bókun nefndarinnar um málið var svohljóðandi:
„Nefndin fagnar því að Guðmundur hafi fengist til að taka verkefnið að sér og þakkar fyrir góða kynningu. Blákvíslarveita yrði mjög stór vatnsveita í ekki stærra sveitarfélagi. Því er mjög mikilvægt að öll gögn málsins liggi fyrir, og ef ráðist verður í verkefnið að vel takist til og áætlanir standist.“

Hér má sjá Hannibal veitustjóri með sýnishorn af röratýpu.