Fara í efni

Burt með njóla og kerfil

Umhverfisnefnd bókaði sérstaklega á fundi sínum í vikunni og hvatti til þess að allir íbúar tækju höndum saman og reyndu að uppræta ágengar plöntur eins og kerfil og njóla hvar sem til þeirra næst. 

Njóli hefur löngum verið þyrnir í augum allra sem vilja að umhverfi okkar sé tiltölulega snyrtilegt og flestir eru meðvitaðið um mikilvægi þess að komið sé í veg fyrir að njóli nái að sá sér. 

Víða um land berjast landeigendur og sveitarfélög síðan við annan vágest sem herjað hefur með þeim hætti að flest allur annar lággróður verður undan að láta.  Þetta er kerfillinn. Nú virðist kerfill vera vera að stinga sér niður nokkuð víða í sveitarfélaginu okkar.  Kerfillinn er hið mesta illgresi og mun ef ekki verður neitt aðhafst breiða hratt úr sér á kostnað annars gróðurs. Meira að segja lúpínan lifir ekki í nálægð við kerfilinn.

Skagfirðingar eins og aðrir berjast nú við kerfilinn og eftirfarandi texti er fenginn að láni af síðunni www.feykir.is

********************
Allt bendir til að óhindruð útbreiðsla skógarkerfils um víðáttumikil gróin svæði leiði til fábreyttari gróðurs og verulegra breytinga á dýralífi, bæði smádýra og fugla. Útivistargildi svæða getur einnig rýrnað þar sem kerfillinn breiðist um sérstaklega í blómlendi og með ám og lækjum. Gömul tún sem ekki eru lengur nytjuð eyðileggjast á fáum árum og spillast sem ræktarland nái kerfillinn yfirhöndinni. Líklega þarf að endurrækta tún ef nýta á landið á nýjan leik. Rofhætta getur aukist í landi þar sem kerfill er ríkjandi vegna þess að undirgróður er þar rýr og yfirborð bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.

Er hægt að stemma stigu við útbreiðslu skógarkerfils?

Vilji fólk vera laust við skógarkerfil í landi sínu er besta ráðið að koma á veg fyrir að hann nái að fella fræ og skjóta rótum. Ef vart verður við ungar plöntur ber að eyða þeim.

Skógarkerfill fjölgar sér ekki aðeins af fræi, heldur einnig með vaxtaræxlun.
Mjög erfitt er að stemma stigu við útbreiðslu kerfilsins þegar hann er kominn í land. Því er nauðsynlegt að uppræta hann strax og hans verður vart í nýju landi; tína upp einstakar plöntur þannig að þær nái ekki að blómstra. Helstu ráð til að eyða honum þar sem hann hefur búið um sig er að slá a.m.k. tvisvar á sumri eða beita hann. Sennilega er það helst sauðkindin sem getur haldið honum í skefjum, nautgripir bíta hann nokkuð en hross hafa að öllum líkindum lítinn áhuga á honum. Þá er hægt að stinga upp rætur, en það útheimtir mikla vinnu og fyrirhöfn og er aðeins framkvæmanlegt þar sem um stakar plöntur eða mjög litlar breiður er að ræða. Loks má nefna að tilraunir hafa verið gerðar til að eyða skógarkerfli með varnarefnum í Eyjafirði. Niðurstöður benda til þess að unnt sé að ná nokkrum árangri með þeim hætti.

Skógarkerfill myndar ekki langlífan fræforða og ef rætur nást upp ætti björninn að vera unninn. Óæskilegt þykir að beita illresiseyðandi efnum á skógarkerfil þar sem hann vex yfirleitt í fremur rökum jarðvegi eða við lækjar- og vatnsbakka. Því er hætta á að efnin berist út í vatn og valdi þar mengun og skaða á öðrum lífverum.
**************************************

Tökum höndum saman og upprætum þessa vágesti úr umhverfinu eins og nokkur er kostur.  Ef ekki er brugðist við munum við lenda í miklum vandræðum síðar meir eins og reyndin hefur orðið víða á landinu. 

Sveitarstjóri