Fara í efni

Sveitarstjórn lýsir yfir áhyggjum af eldislöxum í ám

Stóra Laxá er gjöful veiðiá í stórbrotnu umhverfi.
Stóra Laxá er gjöful veiðiá í stórbrotnu umhverfi.

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti  samhljóða eftirfarandi bókun vegna eldislaxa í ám á fundi sínum þann 27. september 2023:

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps lýsir yfir áhyggjum af þeirri staðreynd að nú séu að veiðast eldislaxar í ám á stórum svæðum vestan- og norðanlands.
Íslenski laxastofninn, hreinleiki hans og orðspor er dýrmætt vörumerki sem mikilvægt er að standa vörð um. Í Hrunamannahreppi er einstök laxveiðiá, Stóra Laxá. Er áin með þekktari laxveiðiám landsins. Áin sem og beinar og óbeinar tekjur sem af henni hljótast eru mikilvægar fyrir svæðið.

Atvinnuuppbygging af ýmsu tagi er mjög mikilvæg fyrir landsbyggðina en leikreglur verða að vera skýrar þannig að hvatinn verði meiri til að halda vel á
málum. Eftirlit verður að vera með þeim hætti að öðrum búgreinum og atvinnuuppbyggingu stafi ekki hætta af né heldur umhverfi og lífríki.

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps skorar á stjórnvöld að setja reglur um fiskeldi þannig að umhverfinu stafi ekki ógn af í framtíðinni. Mikilvægt er að atvinnulíf
geti blómstrað um land allt án þess að lifa í ótta við slys líkt og þau sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum tengd laxeldi. 

 

Nánari upplýsingar um Stóru Laxá má finna á síðunni:   www.storalaxa.is