Hrunamenn fæddir árið 1996 eru fjölmennastir
Eftirfarandi pistill birtist í janúar blaði Pésans sem dreift var til allra íbúa af nemendum í 9. bekk Flúðaskóla. Kunnum við þeim kærar þakkir fyrir.
Staldrað við um áramót
Það er ánægjulegt að fjölgað hefur umtalsvert í Hrunamannahreppi á árinu 2023 en íbúar 1. desember 2023 voru 898 en þeir voru 874 í upphafi ársins. Hafa því 24 nýir einstaklingar bæst í hóp Hrunamanna á árinu. Fjölgun ársins nemur því rétt um 2,7%. Til gamans má síðan geta þess að heldur hefur nú verið bætt um betur og þegar þetta er skrifað eru íbúar Hrunamannahrepps 912 og hafa aldrei verið fleiri. Ekki er útlit fyrir annað en að þessi þróun muni halda áfram miðað við þann mikla fjölda íbúða sem hér eru í farvatninu og þann áhuga fjárfesta á svæðinu sem við finnum fyrir.
Elsti íbúi Hrunamannahrepps er Karl Gunnlaugsson en hann verður 93 ára í nóvember 2024.
Íbúar sem verða níræðir á árinu eða eru orðnir níræðir eru sjö talsins.
Níu börn fæddust á árinu 2023 en árgangurinn sem fæddur er árið 2022 heldur enn sessi sínum sem fjölmennasti árgangur barna og ungmenna í sveitarfélaginu en þau eru 12 alls.
Langfjölmennasti árgangurinn er fæddur árið 1996 en þau eru 24 talsins. Fast á hæla þeirra koma 23 ungmenni sem fædd eru árið 2000 og síðan koma í röð árgangarnir 1994, 1998 og 1999 en hverjum þeirra tilheyra 22 einstaklingar. Maður spyr sig hvað veldur en íbúar fæddir árið 1995 koma svo næstir verandi 20.
Að lokum má geta þess til gamans að meðalaldur íbúa er 39,3 ár og algengast er að karlmenn í Hrunamannahreppi heiti Sigurður eða þá Magnús. Flestar konur heita aftur á móti Margrét eða Anna.
Með ósk um gleðilegt og farsælt nýtt ár færi ég ykkur öllum þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og skemmtilegar samverustundir á árinu sem nú er liðið.
Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri