Fara í efni

Öryggismál á oddinn

Hildur Karen Sveinbjarnardóttir og Ágúst Mogensen frá tryggingafélaginu Verði heimsóttu Hrunamannahrepp í liðinni viku.
Hildur Karen Sveinbjarnardóttir og Ágúst Mogensen frá tryggingafélaginu Verði heimsóttu Hrunamannahrepp í liðinni viku.

Í síðustu viku komu Hildur Karen og Ágúst frá tryggingafélaginu Verði í heimsókn og funduðu með stjórnendum Hrunamannahrepps um tryggingar og öryggismál. Báðir aðilar leggja mikið upp úr góðu samstarfi um öryggismál enda hefur það sýnt sig fækka slysum og óhöppum. Í vátryggingasamningi félaganna er kveðið á um að Vörður leggi til sérþekkingu og aðstoð í öryggismálum sem nemur að lágmarki 20 klst. vinnu árlega og var heimsóknin liður í því. Farið var í sundlaugina, áhaldahúsið, leikskólann og grunnskólann. Munu fulltrúar Varðar skila samantekt um heimsóknina og tillögur í öryggisátt er varða eldvarnir, innbrotavarnir, slysavarnir, umgengni og umferðaröryggi.

Lykillinn að árangri í öryggismálum er að setja þau á oddinn og hafa innbyggð í ferlum og ákvörðunartöku. Viðhorf okkar mega ekki vera þannig að slys og óhöpp séu óhjákvæmilegur fylgifiskur í leik og starfi. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og mannslíf eru óafturkræf. Með því að skrá óhöpp, fjalla um þau og læra af mistökum komum við í veg fyrir að þau endurtaki sig. Tölfræði fyrri tíma um umferðarslys og drukknanir barna sýna að hægt er að fækka slysum. Sama gildir um slys til sjós og umferðarslys á vegum sem hefur verið breytt til hins betra. Stjórnendur Hrunamannahrepps og Varðar munu vinna saman að öryggi sveitarfélagsins næstu árin með heilsu íbúa að leiðarljósi.

Sveitarstjóri