Samningur undirritaður við Bridgefélag Hrunamanna
Skrifað var undir samkomulag um húsnæðisafnot milli Hrunamannahrepps og Bridgefélags Hrunamanna nú nýverið. Með samkomulaginu er ætlunin að ramma inn samstarf Hrunamannahrepps og Bridgefélags Hrunamanna með það fyrir augum að efla og styrkja starfsemi félagsins og auka um leið möguleika Hrunamanna á fjölbreyttu tómstundastarfi. Einnig standa vonir til að með samkomulaginu muni bridge eflast í Hrunamannahreppi þannig að sem flestum gefist kostur á að kynnast þessari skemmtilegu íþrótt.
Í samkomulaginu kemur fram að Bridgefélag Hrunamanna fái gjaldfrjáls afnot af aðstöðu í Félagsheimili Hrunamanna eitt kvöld í viku fyrir æfingar. Einnig fær félagið gjaldfrjáls afnot af sölum í félagsheimilinu haldi félagið Íslandsmót. Inni í samkomulagi þessu eru einnig gjaldfrjáls afnot af sölum vegna eins innanfélagsmóts á ári.
Í staðinn fyrir afnotin munu félagir í Bridgefélagi Hrunamanna kynna bridge árlega fyrir nemendum í Flúðaskóla í samvinnu við skólastjórnendur. Slík kynning gæti einnig farið fram í Félagsmiðstöðinni Zero í samvinnu við forstöðumann. Einnig munu félagsmenn bjóða fullorðnum íbúum í Hrunamannahreppi eitt námskeið í bridge gjaldfrjálst á ári sem auglýst yrði nánar í Pésanum.
Það er gaman að geta þess að félagið var stofnað árið 1967 og er því eitt af elstu félögum sveitarfélagsins. Viðstaddir undirritunina voru þrír stofnfélagar sem hafa verið virkir í félaginu allar götur frá stofnun þeir Guðmundur Böðvarsson, Karl Gunnlaugsson og Garðar Olgeirsson en Karl var formaður fyrstu 50 ár félagsins. eru þeir allir á meðfylgjandi mynd ásamt Valdimari Stefáni Sævaldssyni, formanni félagsins.
Í dag eru virkir félagar um 30 og er spilað í Félagsheimili Hrunamanna öll mánudagskvöld yfir vetrartímann og hefst spilamennskan kl. 19:30.