Tökum höndum saman - yfirlýsing sveitarstjórnar vegna þjóðarsáttar
Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps þann 4. janúar 2024:
Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur eins og aðrir fylgst með skilaboðum sem komið hafa frá Samtökum atvinnulífsins og stærstu félaga innan ASÍ og þeirri umræðu um komandi kjaraviðræður sem nú er í gangi.
Allir geta verið sammála um það að eitt mikilvægasta verkefni kjaraviðræðnanna sem fram undan eru er að ná niður verðbólgunni og vöxtum í samfélaginu en sú mikla hækkun sem orðið hefur á báðum þessum þáttum kemur afar illa við sveitarfélög landsins ekki síður en heimili og fyrirtæki.
Eigi að nást árangur í baráttunni við verðbólgu og vexti verða allir að taka höndum saman. Þjóðfélagið allt verður að leggjast á árarnar svo koma megi á stöðugleika í efnahagsmálum.
Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur haft þá stefnu að hafa gjaldskrár hófstilltar og hefur það tekist enda eru gjaldskrár í Hrunamannahreppi margar hverjar með því lægsta sem gerist. Sem dæmi má nefna að gjaldskrá hitaveitu er með því allra lægsta sem gerist ef ekki sú lægsta á landinu. Gjöld fyrir leikskóla eru óvíða lægri og flestar gjaldskrár afar hófstilltar. Er ljóst að sveitarstjórn hefur í gegnum tíðina viljað gera vel við íbúa og hefur það mælst vel fyrir.
Eigi að síður vill sveitarstjórn með þessari yfirlýsingu lýsa sig reiðubúna til að taka upp og endurskoða þær gjaldskrárhækkanir sem samþykktar voru við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 verði af þjóðarsátt allra þeirra aðila sem nefndir eru hér að ofan. Jafnframt minnir sveitarstjórn á fyrri bókun meirihluta frá 16. nóvember sl. um að sveitarstjóri og oddviti munu einnig taka þátt í þeim aðgerðum verði þjóðarsátt að veruleika.