Karl Gunnlaugsson er elstur allra, en flestir heita Sigurður !

Á undanförnum árum hefur fjölgað umtalsvert í Hrunamannahreppi.
Þegar þetta er skrifað eru íbúar í Hrunamannahreppi 951 og hefur því fjölgað um 53 á árinu 2024 eða um 5,9%.
Á árinu 2023 fjölgaði um 2,7%, úr 874 í 898.
Viljum ná 1000 íbúa markinu fyrir 2026.
Það er mikilvægt að hér verði 1000 íbúar árið 2026 vegna þess að í lögum segir að séu íbúar færri en 1000 um ári frá sveitarstjórnarkosningum ber sveitarstjórn að hefja formlegar sameiningarviðræður við annað/önnur sveitarfélög eða að láta vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum sameiningum. Í þessu ljósi er mikilvægt að Hrunamannahreppur haldi áfram að vaxa og að þannig verði tryggt að það sé frumkvæði og vilji íbúa sem ráði sameiningarhugmyndum en ekki ríkjandi lög í landinu.
En sem betur fer er ekki útlit fyrir annað en íbúum haldi áfram að fjölga miðað við þann mikla fjölda íbúða sem hér eru í farvatninu og þann áhuga fjárfesta á svæðinu sem við finnum fyrir.
16 börn fædd árið 2024
Það er gaman að geta þess að fjölmennasti árgangur barna og ungmenna í sveitarfélaginu fæddist árið 2024 eða 16 börn. Börn yngri en 6 ára eru 73.
Fjölmennust árgangarnir eru fæddir 1994 og 1998 eða 23, hvort ár. Næstfjölmennust eru fædd 1995 og 1996 en þau eru 22 á hvoru árinu fyrir sig.
Meðalaldur íbúa er 39 ár og hefur hann örlítið lækkað frá fyrra ári. Karlar eru 530 eða 55,7% íbúa á meðan að konur eru 44,3% eða 421. Erlendir ríkisborgarar eru 340 eða 35,8%.
Karl Gunnlaugsson er elstur allra
Elsti íbúi Hrunamannahrepps er Karl Gunnlaugsson sem verður 94 ára í nóvember 2025 en 8 íbúar eru eldri en níræðir.
Að lokum má geta þess til gamans að algengustu nöfn Hrunamanna eru Sigurður og Ragnheiður en Magnús, Guðmundur og Anna fylgja þar fast á eftir.
Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri