Miðfellshlaupið 2024
Miðfellshlaupið
Miðfellshlaupið verður haldið 1. júní og er verkefni sem er hugsað til að hvetja til almennrar hreyfingar og heilsueflingar. Hlaupið er unnið í samstarfi við Heilsueflandi Uppsveitir og er öllum opið.
Boðið verður upp á 4 vegalengdir:
- 1.2 km (99% á gangstétt)
- 3 km. (ganga/skokk)
- 5 km. (ganga/skokk/hlaup)
- 10 km. (skokk/hlaup)
Hlaupið byrjar kl. 11. Hlaupaleiðin liggur milli íþróttahúss á Flúðum og Miðfellshverfisins, og fylgir reiðveg og malarveg meðfram Miðfelli að vestanverðu. Hér má sjá myndband af leiðinni: https://www.relive.cc/view/v1vjD3V5ZJ6
Það verður ekki tímataka en það verður markklukka þar sem þátttakendur geta séð tíma sinn þegar í mark er komið. Skráning í hlaupið: https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLScVHQkxtE97JTMCAMoLsQbb36yIrF9yE0Clop_crYDk-Gzcmg/viewform
Í ár höfum við sem stöndum að Miðfellshlaupinu ákveðið að allur ágóði hlaupsins renni til vinnustofu VISS á Flúðum.
VISS vinnu og hæfingarstöð á Flúðum
VISS á Flúðum er sértækt þjónustuúrræði og jafnframt vinnustaður fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu frá 18 ára aldri þar sem veitt er hæfing,
félagsþjálfun, starfsþjálfun og vernduð vinna. Þar er lagt upp með að styðja og efla starfsmenn í vinnu og virkni og lögð er áhersla á að fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu hafi vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum þess og getu. Starfið á VISS miðar að því að auka hæfni starfsmanna til starfa og þátttöku í daglegu lífi eða á almennum vinnumarkaði. Jafnframt er lagt upp með að sjálfstraust fólks eflist og að það verði virkir þátttakendur í eigin lífi.
„Enginn getur allt en allir geta eitthvað“ er haft til hliðsjónar í öllum þáttum starfsins á VISS.
VISS hefur tekið virkan þátt í samfélagslega verkefnum þannig að eftir því er tekið. Þau hafa t.d verið með ratleik, “steinar sem gleðja” verkefnið, perlað fyrir Kraft eða safnað fyrir góðu málefni.
Við hvetjum alla til að taka þátt með okkur, styrkja þessa þörfu starfsemi og njóta hollrar hreyfingar í góðum hópi fólks. Boðið verður uppá hressingu og allir þátttakendur fara ókeypis í sund. Auk þess sem dregið verður úr hópi þátttakenda og munu þeir heppnu hreppa veglega vinninga.
Við hvetjum ykkur til að koma og taka þátt í skemmtilegum viðburði með það að leiðarljósi að efla hreysti, gleðjast saman og styrkja gott málefni.
Nánari upplýsingar varðandi viðburðinn og skráningu má finna á fésbókarsíðunni: Heilsueflandi Uppsveitir (https://shorturl.at/csDZ1 ) og á heimasíðum sveitarfélaganna.
Við hlökkum til að sjá ykkur í sólskinsskapi þann 1. júní.
Með góðri kveðju,
Arnfríður Jóhannsdóttir, Kolbrún Haraldsdóttir og Gunnar Gunnarsson