Miklar framkvæmdir í sumar - leiðari Pésans ágúst 2023
Sumarsins 2023 mun verða minnst fyrir einmuna veðurblíðu, sól, logn, hita og úrkomuleysi. Hér í Hrunamannahreppi hefur hiti farið ítrekað yfir 20 stig og má með sanni segja að samfélagið allt taki stakkaskiptum í þannig blíðu. Sumarkjólar, sandalar og sundferðir verða ómissandi og gleði og léttleiki einkennir mannlífið allt. Líklegt er að fjöldi gesta sem heimsótti sveitarfélagið í sumar hafi sjaldan verið fleiri en nú. Bættir vegir og aukin afþreying hefur þar mikið að segja.
Framkvæmdir hafa verið óvenjumiklar hér í sumar og ber þar hæst vinna við nýtt þak og innréttingu efri hæðar Flúðaskóla. Er það mjög umfangsmikið verk sem því miður er að taka lengri tíma en við vonuðum. Því hefur þónokkur röskun orðið á skólastarfi og ljóst að ekki verður hægt að taka efri hæðina í notkun á þeim tíma sem stefnt var að. Starfsmenn allir og nemendur hafa sýnt mikla þolinmæði og skilning á þessum erfiðu aðstæðum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Framkvæmdir eru á lokastigi við gatnagerð Fannborgartanga og fljótlega munu framkvæmdir hefjast þar við fyrstu húsin. Það verður gaman að sjá hver verður fyrstur til að taka skóflustungu á því svæði.
Framkvæmdum er lokið við nýjan vatnstank á Berghylsfjalli og hefur tankurinn verið tekinn í notkun. Ekki veitir af því vatnsbúskapur sveitarfélagsins hefur ekki verið beysinn í þurrkunum í sumar. Ljóst er að framkvæmdir við veitur eru umfangsmiklar enda margir sem vilja tengjast veitunum og því öryggi sem þær veita.
Sveitarstjórn vinnur nú að breytingum á starfsmannahaldi og rekstrarumhverfi veitna og framkvæmda. Til stendur að ráða nýjan starfsmann sem verður yfirmaður framkvæmda og eignasjóðs en Hannibal sem staðið hefur vaktina með miklum sóma, daga sem nætur í vel ríflega 30 ár verður veitustjóri sveitarfélagsins. Bindum við miklar vonir við að með nýju fyrirkomulagi verði starfið skilvirkara og að starfsaðstæður allra verði betri en þær eru í dag.
Ekki var annað að sjá en að nýjungar í sumarstarfi barna hafi mælst vel fyrir og er ljóst að framhald verður á því starfi. Gestakomur í sundlaugina eru með mesta móti og breyttur opnunartími naut vinsælda. Flúðir um versló var afar fjölsótt og mikið um að vera en framundan er síðan Uppskeruhátíðin og síðan réttardagurinn með tilheyrandi fjöri. Haustið og veturinn lúra svo handan við hornið, með rökkri, kertaljósum og kósiheitum. Njótum allra árstíða því óvíða eru þær fegurri en einmitt hér í Hrunamannahreppi.
Njótum daganna og hækkandi solar
Aldís Hafsteinsdóttir