Fara í efni

Minni karla eftir Helgu R. Einarsdóttur - Táp og fjör og frískir menn

Helga R. Einarsdóttir ólst upp í Garði Hrunamannahreppi.
Myndin er tekin af Auði Ottesen og birtist í tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn.
Helga R. Einarsdóttir ólst upp í Garði Hrunamannahreppi.
Myndin er tekin af Auði Ottesen og birtist í tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn.

Í tilefni þorra sendi Helga R. Einarsdóttir frá Garði í Hrunamannahreppi okkur texta sem hún samdi um karlana í sveitinni hennar á hennar uppvaxtarárum.  Það er von okkar að fólk hafi gaman af þessum skemmtilega texta sem fluttur var fyrir all nokkrum árum á þorrablóti í Hrunamannahreppi. 

Að minnast karla

Þegar talað er um "minni karla - - eða kvenna" kemur uppí huga minn, "Fósturlandsins freyja" og "Táp og fjör og frískir menn", sungið af ofurkappi og hástöfum, mér finnst þessir söngvar satt að segja alltaf frekar leiðinlegir.
Ég man ekki eftir að hafa heyrt svona minni flutt í töluðu máli, en veit þó að ætlast er til að tegundirnar tvær séu með því upphafnar, og tíunduð öll þeirra ágæti.
Hvort svo er inneign fyrir öllu hrósinu verður hver og einn að eiga við sig, sumir trúa og eru glaðir, en aðrir kannski efast og jafnvel andmæla.

Ég ætla að fara svolítið öðruvísi að, ég ætla að MINNAST karla, og það sem ég hef um þá að segja og læt hér frá mér fara er algerlega satt og rétt.
Ekkert endilega bara gott og fallegt, en alla vega dagsatt, enginn þarf að efast um það.

Ég ætla að minnast nokkurra karla sem höfðu áhrif á uppvöxt minn og uppeldi hér í sveitinni, en ég ólst upp við bakka Litlu-Laxár,
í Garði, sem tilheyrir Grafarhverfinu.
Einhver ykkar hafið aldrei þekkt suma sem ég nefni, margir eru dánir, en svo eru aðrir við bestu heilsu og öllum kunnir.

Þegar ég hugsa til baka finnst mér að karlmenn hafi miklu frekar orðið á vegi mínum en konurnar, kannski ekki skrýtið, konur voru yfirleitt meira innanhúss en þar fannst mér lítið spennandi að vera.
Útivinna hvers konar, og skepnurnar - það freistaði mín.

Það er auðvitað nærtækast að nefna fyrstan pabba minn, Einar í Garði, en án hans hefði ég aldrei orðið til.
Hann var garðyrkjumaður, ræktandi af guðs náð og kenndi mér allt sem ég kann í þeim efnum.
Hann spilaði á gítar og fannst gaman að fá gesti.
Hann kenndi mér að vinna og að hafa gaman af því, en mér tókst aldrei að læra á gítarinn.

Bræðrum mínum fjórum á ég líka mikið að þakka.
Sem eina kvendýrið í hjörðinni lærði ég að bjarga mér og lifa af við erfiðar aðstæður, þökk sé þeim.
En á þessum árum voru þeir bara börn, ég ætla að tala um fullorðna menn.

Þegar út fyrir heimilið í Garði kom, er fyrst að nefna Helga í Hvammi.
Ég átti heima í Hvammi til tveggja ára aldurs og tókst síðan eiginlega aldrei að læra hvar ég átti að vera.
Var hlaupin uppeftir um leið og ég vaknaði, jafnvel fyrir hafragraut, stundum á náttfötunum.
Helgi var frekar fáskiptinn við krakka, en hann var góður og amaðist aldrei við mér þegar ég elti hann við útiverkin.

Helgi kom hvern jóladagsmorgunn og spurði hvort við ætluðum í messuna í Hruna? Auðvitað vissi hann vel að við færum þangað, mamma var í kirkjukórnum og Helgi organistinn, og foreldrar mínir skiptu okkur systkinum oftast til helminga á stórhátíðum.
Mamma fór í messuna með tvö, alltaf í jeppanum með Helga, en pabbi var heima með afganginn.
Alla messudaga fórum við í Hrunakirkju, með Helga í Hvammsjeppanum.

Það var líka Helgi sem fann mig, seint á dimmu kvöldi, lengst inná Hrunaásum eftir hrossaleit heilan dag.
Það var komið myrkur þegar við þrjú hin týndu, krakkar á tíu til tólf ára aldri, heyrðum hróp og köll og þar var þá kominn Helgi með séra Sveinbirni í Hruna.
Við vorum víst búin að vera týnd lengi, en vissum það ekki sjálf.
Þarna kemur karlinn séra Sveinbjörn óvænt inní myndina.

Ég þekkti hann vel. Hann kom oft heim og hann hló hátt.
Hann messaði í kirkjunni og hann var prófdómari í skólanum, alveg yndislegur prófdómari.
Ég gleymi því aldrei þegar hann, í landafræðiprófi, stóð við borðið mitt og spurði hvort bræður mínir léku sér aldrei í indjánaleik?
Á prófblaðinu var spurning sem ekki hafði fengið svar, um fólkið sem byggði Ameríku fyrir tíma Kólumbusar?
Strákarnir voru nú reyndar alltaf frekar lélegir í indjánaleikjum, en spurningunni var bjargað.
Séra Sveinbjörn fermdi mig og þeir eru ógleymanlegir dagarnir þegar við fórum gangandi upp að Hruna "til spurninga" eins og þá var sagt.
Sérstaklega þegar músin faldi sig í orgelinu, það tók okkur nærri allan tímann að ná henni, en það tókst.

Í Hvammi voru líka bræðurnir, Jói og Kjartan.
Þeir voru auðvitað engir karlar þá, en nærri fullorðnir karlmenn alla vega.
Mér er það eiginlega enn í dag óskiljanlegt hvernig þeir, sem voru þá lítið meira en hálffullorðir, gátu þolað mig og reyndar fleiri krakka sem eltu þá við útiverkin alla daga. Alla fjóstíma hékk ég yfir þeim við mjaltirnar, örugglega spyrjandi misgáfulegra spurninga og þvældist meira og minna fyrir vinnandi mönnunum, en aldrei var amast við mér.
Kannski til að afla vinsælda, man ég að við tvær frænkur, stunduðum það að syngja fyrir fjósamenn, líka dönsuðum við sömbu og sungum Dísu í dalakofanum undir. Í fjósinu lærði ég vísur , sem engum öðrum datt í hug að kenna mér alla mína skólagöngu. Mjög merkilegar sumar, ég komst að því seinna.

Á morgun ó, og aska, hí og hæ,
ha og uss og pú, og kannski sei sei.
Korríró og amen bí og bæ,
bösl í hnasli, sýsl í rusli og þey þey.

Þetta kenndi Jói mér, í fjósinu. Ljóð eftir Halldór Kiljan, ég legg ekki meira á ykkur.
Kannski var ég svona fimm eða sex ára og hafði ekki hugmynd um hversu merkilegt kvæðið var, en ég hef aldrei gleymt því síðan.

Það voru reyndar skepnurnar í Hvammi sem drógu mig til sín. Hestarnir, sem Jói hafði mest með að gera.
Jóa Rauður var svo flottur hestur að ég þorði eiginlega aldrei að biðja um hann að láni. Gustur, stólpagripurinn góði, og Jörp, merin sem bæði beit og sló.

Jói fékk sér kindur og þá fékk ég að eiga tvær, sem urðu seinna fleiri. Við Jói rákum fjárbú saman.
Örn bróðir minn átti nú víst að teljast meðeigandi til að byrja með, en hann var heldur latur við smalamennskur og leit ekki mjög vel út á hestbaki, svo það var nokkuð sjálfgert að hann flæmdist frá búskapnum.
Hann rak þó á fjall með okkur nokkrum sinnum.

Kjartan fékk sér svín og það var spennandi, ekki mikið um þau í sveitinni.
Ógleymanlegt þegar litlu grísirnir voru að koma í heiminn - alveg óteljandi fannst okkur, og allsberir.

Annars var Kjartan frægastur fyrir það að hann fór til útlanda.
Hann fór til Noregs og var þar heillengi og þegar hann kom aftur kunni hann að renna sér á skíðum.
Það hafði enginn reynt í Grafarhverfinu fyrr.
Ég segi ykkur satt, hann fór með skíðin uppá Högnastaðaás og renndi sér svo beinustu leið niður, alla leið -- og datt aldrei.
Á síðari árum hefur mér stundum fundist með ólíkindum hversu mikill snjórinn hefur verið í ásnum þá, óslitinn skafl alla leið niður?
Líklega var óvenju snjóþungt veturinn þann.

Það kom svo að því að ég fór að fara á aðra bæi, fyrst bara innan Grafarhverfisins, yfir ána fór ég ekki, ekki strax.
Grafarhverfið var þá bara fjórir bæir. Gröf, Högnastaðir, Hvammur og Garður.
Þá var engin brú á Litlu-Laxá, oftast var bara vaðið yfir og krakkar bornir á bakinu.

Ég fór í sendiferðir, oft til að fá eitthvað lánað, kannski sykur, grjón eða kaffi, það var ekkert hlaupið í búð á þessum árum.
Eggin voru keypt á Högnastöðum og mjólkin í Hvammi.
Ég var oft send fram að Gröf og stundum við Örn saman.
Þar var karlinn Emil og hann kenndi mér eitt sem ég man alltaf síðan. Hann kenndi mér að berja að dyrum.
Við Örn stóðum á tröppunum í Gröf og hann lét höggin dynja á hurðinni, góða stund. Allt í einu opnuðust dyrnar og Emil stóð fyrir framan okkur, ekki glaðlegur. Spurði eitthvað sem svo "hverslags barsmíðar þetta væru - hvort við kynnum ekki að berja amennilega að dyrum?"
Það varð víst fátt um svör.
"Það á bara að berja þrjú högg" sagði’ann og sýndi svo hvernig:
eitt - tvö - þrjú - og þau segja um leið -- Hér - sé - guð.
Þetta lá í augum uppi þegar hann hafði sýnt það.
Svo skellti hann hurðinni á nefið á okkur.
Eftir smá hik reyndum við galdurinn, - hér - sé - guð.
Dyrnar opnuðust með það sama.
Síðan kann ég að berja að dyrum.

Siggi á Hverabakka: Hann átti gróðurhús á hinum árbakkanum og líkega daglega hittust þeir pabbi, óðu yfir eða spjölluðu saman yfir ána.
Kom reyndar fyrir að svo mikið væri í ánni að ófært væri, þá kölluðust þeir á eða jafnvel stóðu bara hvor á sínum bakka orðlausir vegna hávaða í flaumnum. Á meðan þessir fundir fóru fram tókum við "vinnufólkið" okkur gjarnan smá pásu við vinnuna.

Þegar við vorum látin flytja mjólkina á hestvagninum upp að Grafarbakka var það gjarnan Siggi sem hjálpaði okkur að koma brúsunum uppá pallinn, við gátum varla loftað þeim tómum.
Stundum þurfti líka að lyfta á vagninn kössunum með öllum matvörunum frá Kaupfélaginu.
Pöntunin hafði farið á Selfoss með mjólkurbílnum daginn áður.
Siggi hjálpaði okkur og stundum líka Brynki Vald - karlinn sem keyrði mjólkurbílinn.

Siggi átti líka "Siggabúð", hann rak verslun í húsinu á Laxárbakka. Alvöru búð þar sem margt var hægt að kaupa.
Þá vorum við farin að vaða yfir ána og gátum einstöku sinnum fengið að kaupa hjá honum appelsín, en mig minnir nú reyndar að það hafi sjaldnast þurft að borga. Siggi málaði myndir, alvöru málverk, sem hann gjarnan gaf vinum og kunningjum, Siggi var óskaplega gjafmildur maður.
Mummi í Akurgerði. Hann var karlinn sem kom á mánudögum og fimmtudögum að sækja grænmetið sem átti að fara í Sölufélagið.
Þá vorum við búin að vera að allan daginn, taka upp og pakka allslags grænmeti, bera kál og tína í poka. Sjálfsagt var þetta erfitt fyrir krakka, en ég minnist þess meira hvað var spennandi að senda sem mest, ná að senda fleiri tómatkassa eða pakka meiri gulrótum en þau á Hverabakka eða ná að fylla fleiri kálpoka en Hvammsmenn.
Með Mumma var líka hægt að fara í þægilega dagsferð til Reykjavíkur.
Með honum fór ég mína fyrstu kaupstaðarferð á eigin spýtur.

Í Bryðjuholti var karl sem hét Magnús - hann var bóndinn þar.
Til hans vorum við eldri systkinin send á haustin með bréf frá pabba. Þá var ekki kominn sími á alla bæi.
Við fórum gangandi yfir Högnastaðaásinn og svo inn með Bryðjuholtsmúlanum, heim að bæ.
Annað hvort okkar hafði í vasanum samanbrotna pappírsörk, sem var fest við fóðrið með öryggisnælu og á henni var falast eftir hesti til slátrunar.
Þessar ferðir voru alltaf farnar á sunnudögum og tóku allan daginn. Við máttum svo leika okkur við krakkana þar, um miðjan daginn, en þurftum helst að komast heim fyrir myrkur.
Við fengum alltaf rausnarlega veitingar í Bryðjuholti, mjólk og kökur eins og við gátum í okkur látið.

En að því loknu fórum við með Önnu og Sigga gangandi upp að Kópsvatni. Þar fengum við aftur veitingar.
Og þar var einn karlinn enn, sem hafði hreint ekki lítil áhrif á mitt framhaldslíf. Gvendur á Kópsvatni.
Hann var merkilegri en flestir aðrir sem við þekktum.
Hann vissi allt um allan heiminn og hann átti alveg endalaus ósköp af frímerkjum. Hjá honum lærði ég að safna frímerkjum sem seinna hefur svo leitt mig útí söfnun ólíklegustu hluta.
Foreldrarnir fengu fljótlega að vita af þessum verslunarmöguleikum -- að Gvendur ætti litla poka með merkjum sem hægt væri að kaupa.

Með hrossakjötspöntuninni í vasanum voru þess vegna oftast nokkrar krónur til viðskipta. Einn lítill poki kostaði kannski fimmtíu aura, en það voru til stærri pokar, jafnvel á tvær krónur og það var mikið í þeim.
Svo kom það stundum fyrir að við skruppum að Kópsvatni á sunnudögum utan sláturtíðar, þar var svo óskaplega spennandi að vera.

Karlinn á Grafarbakka hét Kristófer, það var nú karl í krapinu! Hann átti gráan vípon og keyrði fólk á honum hvert sem óskað var.
Hrunamenn ferðuðust með sætaferðum löngu áður en fólk í öðrum byggðarlögum heyrði af þeim ferðamáta.
Á íþróttamótin á Þjórsártúni, sundmót Skarphéðins í Hveragerði og svo þegar fram í sótti á böllin, hvort sem var á Brautarholti, eð Vatnsleysu. En þá var ég orðin eldri.
Kristófer var magnaður bílstjóri, sem gat komist allt.
Og svo átti Kristófer, og reyndar Stína líka, alla þessa krakka, sem urðu bestu vinir okkar systkina eftir að við fórum að vaða yfir ána.

Eftir því sem árin liðu fór sjóndeildarhringurinn stækkandi og karlar á fjarlægari bæjum bættust í hóp kunnugra.

Þegar ég var fermd --- vorið eftir að við veiddum músina í Hrunakirkju, fékk ég hest í fermingargjöf.
Og þar kemur nýr karl til sögunnar.
Geiri á Hrafnkelsstöðum.
Geiri valdi þennan hest fyrir foreldra mína og varð eftir það minn sérlegi ráðunautur í hrossabraski.
Og hann gerði betur en það: Þegar sauðkindinni var úthýst úr Grafarhverfinu, bauðst hann til að taka fyrir mig tvær eða þrjár kindur í fóðrun.
"Ómögulegt að stelpan verði fjárlaus" heyrði ég hann segja við pabba þegar um þetta var samið.
Það sem ég þurfti að leggja til málanna var að reka með honum á fjall á vorin. Og það leiddist mér ekki.
Í fyrstu viku júlí hringdi hann og spurði hvort ég héldi að við gætum rekið einhvern næstu daga?
Að reka á fjall með Geira var góður skóli fyrir okkur unglingana sem fengum að njóta þess, og við vorum nokkuð mörg.
Hann kenndi okkur svo óskaplega margt.

Á leiðinn heim frá rekstrum var gjarnan komið við á bæjum og þar voru karlar.
Bergur á Jaðri -- hann var sá sem fyrstur bauð mér koníak með kaffinu eins og ég væri fullorðin manneskja.
Kannski var ég sextán ára og drakk ekki kaffi, hvað þá koníak.
En svona ótvíræð yfirlýsing um að ég væri jafningi hinna í hópnum gerði mér næsta létt að hella hvoru tveggja í mig.
Það hefði verið ókurteisi að hafna því.
Þetta var bara sjálfsagður hlutur, allir fengu kaffi og koníak hjá Bergi á Jaðri.

Það var komið við í Haukholtum og í Skipholti og svo auðvitað alltaf á Kotlaugum. Siggi á Kotlaugum var einn albesti karlinn í uppsveitinni og ég verð nú bara að nefna Völu líka þó kona sé.
Þetta var yfirleitt síðasti bær fyrir heimkomu, okkur lá ekkert á.
Nóttin var björt og jafnvel sól á himni þegar við kvöddum þessi sómahjón og riðum spölinn sem eftir var. Þá var að nálgast tvo sólarhringa frá því við lögðum af stað að heiman og heldur lítið sofið.
Það voru karlar um alla sveit, en ég þekkti þá ekki alla jafn mikið.
Suma þó vel í sjón, eins og Billa á Sólheimum og bræður hans Gest og Böðvar á Seli. Þetta voru karlar sem voru áberandi í réttunum og vissu allt um kindur. Ég dáðist að svoleiðis körlum.

Árni í Galtafelli, hann var hreppsstjórinn og við krakkarnir fórum gangandi til hans að sækja skömmtunarseðla fyrir kaffi og smjörlíki.
Og líka með skottin af minkunum sem við veiddum, hann borgaði okkur fyrir þau með peningum. Borgaði bara nokkuð vel.
Það var alveg dagleið fram að Galtafelli og til baka aftur.

Ég ætla ekkert að minnast á strákana sem voru á mínum aldri, ég gæti lent í vandræðum með það.
Sumt má bara alveg vera ósagt.
Engin ástæða til að lýsa í smáatriðum kvöldunum í sundlauginni á Flúðum.
Boltaleiknum á miðvikudags og föstudagskvöldum, hvað strákarnir úr Miðfellshverfinu voru rosalega góðir í boltanum og notalegt að láta þá taka utanum sig.
Maggi í Miðfelli var þó þarna orðinn fullorðinn og hættur í boltaleik.
En hann sat oft uppi á bakkanum og hélt utanum hana Ellu.

Ég ætla ekkert að segja frá því þegar ég henti Eiríki á Grafarbakka ofanaf stabbanum í hlöðunni og handleggsbraut hann.
Eða þegar við Pálmar sváfum saman undir tjaldinu í gamla kofanum í Svínárnesi, með Laugu á Bjargi við hliðina á okkur á pallinum.
Nei - það er best að láta þessa stráka eiga sig, skólabræður mína og leikfélaga á unglingsárum.
Það er líka langt þangað til þeir verða karlar.

Texti eftir Helgu R. Einarsdóttur.