Nýr vatnsgeymir á Berghylsfjalli formlega vígður
Nýr vatnsgeymir var formlega vígður þann 25. september s.sl.. Er geymirinn hluti af vatnsöflun úr Berghylsfjalli, þar sem vatn er tekið úr lindum í svonefndum Fagradal sem einnig eru í landi Berghyls en lindirnar eru í um 286 m hæð yfir sjávarmáli.
Geymirinn stendur í ca 230m hæð og rúmar rúmlega 320.000 lítra af vatni sem er líklega svipað magn og sundlaugin hér á Flúðum geymir á hverjum tíma. Vatnið frá tanknum er svo leitt til byggða í ø225mm lögn.
Val á staðsetningu geymisins í Berghylsfjalli er að miklu leyti vegna hæðarinnar, en vegna hennar þá sparast umtalsverð dæling, einkum í miðlunargeymi í Langholtsfjalli.
Með tilkomu þessarar miðlunar eykst miðlun vatnsveitunnar um ca 50%, en fyrir var hún um það bil 600.000 lítarar (250.000 lítrar í tanknum á Langholtsfjalli sem byggður var 2002 og 450.000 lítrar í tanknum á Högnastaðaás sem byggður var 1996)
Hönnun tanksins var í höndum Guðmundar Hjaltasonar hjá Eflu ehf. Tilboð í geyminn voru opnuð 2. júní 2021 og var lægstbjóðandi fyrirtækið Selás byggingar ehf en eigandi fyrirtækisins og forsvarsmaður er Hákon Páll Gunnlaugsson. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði uppá 64,5 m.kr. en endanlegur kostnaður við smíði tanksins, þegar allt er talið, er nærri 75 m.kr..
Byrjað var á smíði geymisins í júlí árið 2021 og smíðinni lauk í júlí 2023 með þeim glæsilega hætti sem nú má sjá á Berghylsfjalli.
Við vígsluna þakkað sveitarstjóri fyrir hönd Vatnsveitu Hrunamannahrepps og sveitarfélagsins þeim Guðmundi Hjaltasyni fyrir hönnun og utanumhald verkefnisins, Hákoni Páli fyrir samstarfið og ekki síst ábúendum á Berghyl þeim Jóni G. Eiríkssyni og Önnu Maríu Sigurðardóttur fyrir jákvæðni og greiðasemi þeirra við samfélagið okkar hér í Hrunamannahreppi alla tíð því án góðs samstarfs við landeigendur hefði þetta verkefni aldrei getað orðið að veruleika.
Að lokum gaman að geta þess að Vatnsveita Hrunamannahrepps þjónar byggðinni í þéttbýlinu á Flúðum, um fjörutíu bæjum í Hrunamannahrepp ásamt bæjunum í Skarði, Sandlækjarkotsbæjunum, Gunnbjarnarholti og Reykjatorfunni í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, einnig um tvöhundruð og fimmtíu sumarbústöðum sem eru vítt og breytt um hreppinn. Vatnsveitan hefur stækkað mikið á undanförnum árum og hefur bæði leitt vatn til lögbýla, fyrirtækja, garðyrkjubýla sem og til sumarbústaða.
Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri