Ósk um umferðartalningu send Vegagerðinni.

Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps þann 6. mars 2025 var fundargerð Veitu- og framkvæmdanefndar tekin til afgreiðslu. Sveitarstjórn bókaði eftirfarandi vegna umræðu nefndarinnar um snjómokstur og hálkuvarnir:
Varðandi lið 10, umræða um vetrarþjónustu og ástand vegakerfisins í sveitarfélaginu þá tekur sveitarstjórn undir sjónarmið nefndarinnar um snjómokstur og hálkuvarnir í sveitarfélaginu. Einnig samþykkir sveitarstjórn að óskað verði eftir því við Vegagerðina að framkvæmd verði umferðartalning á Skeiða- og Hrunamannavegi ofan við Flúðir og að jafnframt verði umferð talin á Hrunaveginum en þar hafa komið fram óskir frá íbúum um úrbætur og slitlag.
Umfjöllun nefndarinnar var eftirfarandi:
Nefndin vill leggja áherslu á mikilvægi þess að snjómokstur sé oftar en nú er á Skeiða- og Hrunamannavegi ofan við Flúðir. Jafnframt eru hálkuvarnir afar mikilvægar á þessum fjölförnu leiðum. Til þess að betur sé hægt að ná utan um umræðu um þessi mál þá vill nefndin óska eftir að Vegagerðin framkvæmi umferðartalningu á Skeiða- og Hrunamannavegi ofan við Flúðir og jafnframt á Hrunaveginum þar sem óskir hafa komið frá íbúum um úrbætur og slitlag.
Ofangreindum óskum hefur þegar verið komið á framfæri við Vegagerðina. En heimamenn eru sammála um að umferð hefur aukist verulega á Skeiða og Hrunamannaveginum sem og á Hrunaveginum á undanförnum misserum og því brýnt að vetrarþjónusta verði aukin svo öryggi vegfarenda sé tryggt.