Fara í efni

Skólamáltíðir verða gjaldfrjálsar í Flúðaskóla

Það er oft líflegt í Flúðaskóla og skólinn og nemendur hans fá iðulega góða gesti.  Þessi mynd er tekin í tilefni af heimsókn, forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur árið 2023.
Það er oft líflegt í Flúðaskóla og skólinn og nemendur hans fá iðulega góða gesti. Þessi mynd er tekin í tilefni af heimsókn, forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur árið 2023.

Börn sem stunda nám í Flúðaskóla skólaárið 2024-2025 munu fá gjaldfrjálsar skólamáltíðir samkvæmt ákörðun sveitarstjórnar frá 15. ágúst s.l.
Er þessi aðgerð liður í að greiða fyrir gerð langtímakjarasamninga á vinnumarkaði með það að markmiði að kveða niður vexti og verðbólgu. Við kjarasamningsgerðina var skorað á sveitarstjórnir um allt land að taka þátt og sína samstillt átak til að liðka fyrir gerð langtíma kjarasamninga með því m.a. að bjóða nemendum í grunnskólum gjaldfrjálsan hádegisverð.

Í lögum um rekstur grunnskóla segir að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma.  Hingað til hefur verið heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem sveitarfélög setja sér og hafa flest sveitarfélög nýtt sér þá heimild og innheimt gjald fyrir skólamáltíðir. Hér í Hrunamannahreppi hefur gjald vegna hádegisverðar numið kr.   475,- .  Sú þumaputtaregla hefur verið viðhöfð að hráefniskostnaður sé að mestu greiddur með þessu gjaldi.  Annar kostnaður, svo sem laun, búnaður og annað slíkt hefur verið greiddur með öðrum tekjum sveitarfélagsins. 

Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og Sambandsins  vegna laga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir á framlag ríkisins að meðaltali að jafngilda 75% af því sem foreldrar hefðu áður greitt. Mismuninn greiðir svo sveitarfélagið. Fyrirkomulagið verður þannig að framlagið skal skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka skólaárs 2027, að undanskildum júlímánuði ár hvert. Samkvæmt skiptingunni fær Hrunamannahreppur  kr. 2.564.233,-  vegna mánaðanna ágúst til desember 2024. 

Aldís Hafsteinsdóttir 
Sveitarstjóri