Fara í efni

Sveitarstjórn ályktar um samgöngumál

Nýverið var vegurinn að Hrunakirkju lagður slitlagi og hefur það verið til mikilla bóta.
Nýverið var vegurinn að Hrunakirkju lagður slitlagi og hefur það verið til mikilla bóta.

Erindi frá samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var vísað til Umhverfisnefndar Hrunamannahrepps nýverið en í því var óskað eftir ábendingum um brýn verkefni á sviði samgangna í sveitarfélaginu. 

Sveitarstjórn hefur nú tekið fundargerð nefndarinnar til afgreiðslu og bókaði af því tilefni eftirfarandi: 

"Sveitarstjórn þakkar nefndinni góðar tillögur að brýnum samgöngubótum í sveitarfélaginu sem Samgöngunefnd SASS verða nú sendar.

Tillögur nefndarinnar að framkvæmdum innan sveitarfélagins lúta að mikilvægi tveggja akreina brúar yfir Brúarhlöð þar sem umferð hefur aukist mjög að undanförnu. Allt bendir til þess að umferðin muni aukast enn frekar með fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu og væntum breyttum ferðaleiðum ferðamanna með tilkomu brúar við Árnes.

Huga þarf að uppbyggingu og klæðningu vegarins um Kirkjuskarð en umferð um þann veg hefur aukist mikið og vegurinn er í slæmu ásigkomulagi. Einnig er brýnt að byggja upp og klæða Auðsholtsveginn en vegurinn verður fyrir ágangi vatns þegar flóð verða í ám á svæðinu og lokast hann því oft af þeim ástæðum. Því er nauðsynlegt að vegurinn verði hækkaður og hann varinn þannig að þessi eina leið ábúenda á svæðinu lokist ekki í flóðum.

Sveitarstjórn vill einnig ítreka nauðsyn þess að vegurinn inn að Hrunalaug verði bættur en gestakomum þangað fer sífellt fjölgandi með bættri og aukinni aðstöðu og uppbyggingu á svæðinu.

Hvað rekstur og viðhald varðar vill sveitarstjórn taka undir með nefndinni og ítreka fyrri óskir um bætta vetrarþjónustu þannig að alla daga sé hreinsaður snjór og hálkuvarið á vegum. Einnig þarf að huga að umferðaröryggi á vegum í sveitarfélaginu en umferð hefur marktækt aukist á svæðinu.

Sveitarstjórn tekur einnig undir aðrar hugmyndir og ábendingar nefndarinnar að samgönguúrbótum á Suðurlandi og hvetur Samgöngunefnd SASS og önnur sveitarfélög á svæðinu til að standa að öflugu samtali við Vegagerðina og ráðamenn varðandi uppbyggingu vegakerfisins á Suðurlandi, því svæði þar sem fjölgun íbúa er hvað mest og fjöldi ferðamanna einnig."

Hér má lesa fundargerð Umhverfisnefndar þar sem enn ítarlegar er fjallað um málið. 

Sveitarstjóri.