Fara í efni

Uppskeruhátíð Hrunamannahrepps á Flúðum

Hrunamenn bjóða öllum til Uppskeruhátíðar á Flúðum næstkomandi laugardag, 7. september 2024.

Fjölbreytt dagskrá er í boði sem hefst með Uppskerumessu í hinni sögufrægu Hrunakirkju kl. 11:00.  Að messu lokinni verður boðið upp á grillaðar pylsur og leiki.

Hinn þekkti uppskerumarkaður Hrunamanna verður síðan í félagsheimilinu á milli kl. 13:00 og 17:00.  Þar verða fjölbreyttar og skemmtilegar vörur til sölu. Kjöt og ferskt, nýupptekið, grænmeti, blóm úr uppsveitunum, föt, skart og margt, margt fleira.  Þar verður einnig markaður frá VISS á Flúðum sem er vinnustaður fyrir fólk með skerta starfsgetu.  Í Huppusal mun Héraðsskjalasafn Árnessýslu frumsýna sögusýningu um fjallferðir og réttir Árnesinga í gegnum tíðina. Verður sýningin opin á sama tíma og markaðurinn.  Svo má ekki gleyma Lalla töframanni sem skemmtir gestum milli kl. 14 og 15 og gleður yngstu kynslóðina einnig með blöðrudýrum. 

Kvenfélag Hrunamannahrepps mun verða með vöfflusölu í félagsheimilinu og mun allur ágóði af sölunni renna til góðra málefna innan sveitar.

Helga R. Einarsdóttir sem alin er upp í Garði Hrunamannahreppi, leiðir létta sögugöngu um miðsvæði Flúða og hefst gangan kl. 16:00 við Félagsheimilið. 

Á Flúðum er fjölbreytt starfsemi, söfn, fyrirtæki, verslanir og veitingahús sem öll opna dyr sínar þennan dag fyrir gestum og bjóða alls konar tilboð og uppákomur.

Endilega kynnið ykkur dagskrá dagsins með því að smella á myndina hér til hliðar. 

Verið öll hjartanlega velkomin í Hrunamannahrepp á Uppskeruhátíðina.

Sveitarstjóri